Þórður Áskell Magnússon heiti ég og bý á Grundarfirði, á Grundargötu 84 ásamt konu minni henni Dóru Henriksdóttir Ég er fæddur 18 nóvember 1967 og uppalinn í Reykjavík en flutti til Grundarfjarðar 1991.
…Meira að segja þetta er flóknara hjá mér en öðru fólki, ég mun alltaf kalla mig Þórð og kynna mig þannig. En árið 2019 þá var orðið of flókið fyrir mig að heita Þórður Áskell, búandi 50% af árinu í Florida og 25% af árinu í Póllandi. Þannig að ég breytti nafni mínu. Í Hagstofunni og í öllum opinberum skjölum þá heiti ég Thor Magnússon. Það er nú mitt lögverndaða starfsheiti. Það var bara ekki alltaf auðvelt að vera með rekstur í USA og Póllandi og geta hvergi skrifað undir nema með meiri háttar veseni.
Eldri strákurinn okkar hann Przemyslaw Andri Þórðarson stofnaði litla fjölskyldu að Hlíðarvegi 19 í Grundarfirði þar sem hann býr með Evu Kristínu og saman eiga þau tvær litlar skvísur, þær Alexöndru Björgu og Amöndu Kolbrúnu. Yngri strákur okkar heitir Tómasz Theodór Þórðarson. Hann býr í Reykjavík. Hér eru myndir af þeim öllum.
Örsaga: Ég á og rek TRM í Póllandi, Djúpaklett ehf (fyrirmyndarfyrirtæki skv Credit-info og erum nokkuð stolt af því), Selsker ehf, Vélsmiðju Grundarfjarðar, Snæís hf og Helgrindur ehf. Bý á Íslandi, Póllandi og USA.
Lengri sagan: Ég ólst upp í Reykjavík (austurbæingur), gekk í Vogaskóla, Austurbæjarskóla, Breiðagerðisskóla, Langholtsskóla og svo kláraði Menntaskólann við Sund, fór eftir það til sjós í tvö ár en síðan lá leiðin til Akureyrar í sjávarútvegsfræði háskóla Akureyrar, þar sem mér leiddist ógurlega og hætti eftir fyrsta árið þar.
Þetta var skrýtið tímabil, barnæskan. Við bjuggum nánast alltaf í sama hverfi en einhverra furðulegra hluta vegna var ég látin skipta um skóla fjórum sinnum sem barn. Var grindhoraður, fæddur alveg í lok árs og með sama kjaft og í dag. Það gat ekki farið vel. Enda var ég laminn sundur og saman. Svo fengu bæði systkyni mín hrörnunarsjúkdóm, sem þau svo dóu úr. Þá var ég var þetta ca 16 ára, þegar þau fá þennan sjúkdóm. Það var hræðileg barátta fyrir þau, og auðvitað alla í kringum þau. Þó mest mömmu auðvitað, það er hræðilegt að horfa á börnin sín deyja.
Svo klúðraði Maggi öllu, spilað sjálfum sér í fangelsi og lögfræðiréttindunum í klósettið. Fjölskyldan tapaði öllu og við enduðum á götunni. Þannig að árin 10-20 ára voru skrýtin og erfið. Ekki margra gamansögur frá því tímabili. Ég vann alltaf mikið á þessu tímabili og fram að fertugu. Vann öll störf sem til eru, í bygginagariðnaði, garðyrkju – hellulögnum, vann sem flakari, beitningarmaður, sjómaður, löndunarmaður í ferskfisktogurum og frystitogurum, vann sem bensín afgreiðslumaður, vann við allt sem gaf einhverjar tekjur…. En Menntaskólann kláraði ég utanskóla þar sem það þurfti jú að vinna.
Ég hef stundum hugsað líf mitt í tímabilum:
0-10 ára. Man nánast ekkert, svo lítið að ég veit ekki hvað ég man og hvað mér var sagt síðar meir.
10-20 ára. Man allt og vona að ég geti einhvern tíman gleymt því.
20-30 ára. Frábærlega skemmtilegur tími. Kannski stundum of mikil gleði/skemmtun en hrikalega gaman.
30-40 ára. Þá fór ég að skilja alvarleikann. Nú er að duga eða drepast. Var kominn í stöðu til þess að búa eitthvað til. Vann 16-18 klst á dag, 7 daga vikunnar.
40-50 ára. Allt gekk upp. Allt. Nú er bara að vona að maður hafi heilsu.
50-60 ára. Er rúmlega hálfnaður á þessari göngu, lífið er yndislegt.
En aftur að byrjuninni.
Svo ég fór ég að heiman um tvítugt, átti ekkert og bjó út um allt. Endaði í kjallaraíbúð á Hallveigarstíg. Það varð góður tími, þar bjó ég frá 21-23 ára aldurs. Mikil vinna, mikið djamm. Var þá sjómaður, á línubátnum Núp sem gerður var út frá Hafnarfirði.
En svo fullorðinsárin. Maggi, pabbi minn, var að klára afplánun en hann endaði lögfræðiferilinn sinn sem fangi á Kvíabryggju. Það er saga að segja frá því öllu en það verður ekki gert hér. Hann hafði einhver sambönd við Herluf Clausen sem rak meðal annars eina fiskvinnslu í Kópavogi. Maggi fékk þá hugmynd, þar sem engin fiskmarkaður var á þessum tíma í Grundarfirði, að kaupa smábátafisk, flaka hann og senda í fyrirtæki Herlufs. Hann fann (í gegnum fangelsistjórann á Kvíabryggju og fangaverði sem aðstoðuðu hann) gamalt og hálfónýtt fiskvinnsluhúsnæði á Grundarfirði sem var alveg að niðurlotum komið en kostaði ósköp lítið í leigu ásamt kofaskrifli til að búa í.
Ég var búinn að ákveða að hætta í Háskóla Akureyrar og sækja aftur um í Trömsö í Noregi, þannig að ég átti rúmt ár sem ég ætlaði bara að vinna, gera eitthvað áður en ég færi aftur í nám. Þannig að í lok apríl 1991 fékk ég sendibílstjóra til að keyra mig og það litla sem ég átti frá Akureyri til Grundarfjarðar, greitt með ávísun þrjá mánuði fram í tímann, Þetta voru fjármunirnir sem ég kom með inn í reksturinn.
Þannig að það að það að leiga á húsi og “vinnslu” hafi kostað ósköp lítið skipti mjög, mjög miklu máli því það voru akkúrat peningarnir sem við áttum. Þannig var byrjað af miklum vanefnum með tvær hendur tómar og enga tiltrú furðulostinna bæjarbúa sem höfðu aldrei fengið svona sendingu úr höfuðborginni áður. Einn fyrrverandi fangi á skilorði, lögfræðingur þess utan, og kjaftfor krakki sem allt þóttist vita og enn meira kunna.
Einhvern veginn tók þessa basl á sig mynd og hófum við að leigja og síðar kaupa nokkra smábáta til þess að útvega okkur tryggari atvinnu. Á endanum gerðum við út Brynjar SH sem við leigðum, Margréti SH sem við keyptum með Birni Heiðari, Sigrúnu SH sem við keyptum með Jóa Arngríms, Stjörnuna VE, Hugrúnu SH og Helgu Hafsteins SH. Með ótrúlegri þrautseigju tókst okkur að vera búnir að selja alla þessa báta áður en kvótakerfið hefði gert okkur ríka á þessu. Þetta var oft erfitt, géggjuð vinna en líka þræl gaman. Við vorum kallaðir “lögfræðingarnir” í þorpinu þannig að þegar við stofnuðum fyrirtæki í kring um þetta þá var það að sjálfsögðu skýrt “Lögfiskur”. Ég er búinn að skanna nokkrar gamlar myndir af þessu tímabili og setja þær hér. Þessar myndir eru stórkostlegar, að hugsa sér að þetta hafi allt byrjað við þessar aðstæður, einn staurblankur stráklingur að koma úr námi, fangi á skilorði að byrja á rekstri sem þeir höfðu enga reynslu í, höfðu enga peninga, engin ættartengsl og þekktu ekki einn einasta mann í þorpinu utan fangavarðanna sem Maggi þekkti jú. Hver myndi ekki treysta þessu liði?
Útgerðarsögu minni lauk svo skyndilega árið 1996 þegar við feðgarnir tókum smá snerru sem leiddi til þess að okkar viðskiptum lauk tímabundið. Ég sem sagt seldi minn hlut í Lögfisk, fékk út úr Lögfisk Sigrúnu SH, skuldlausa, og nákvæmlega eina milljón í peningum, sem var svolítil upphæð árið 1996. Sigrúnu SH rak ég í einhvern tíma en seldi hana svo í skiptum fyrir hlutafé í Ásakaffi. Það var sem sagt eðlilegt framhald í mínum huga þá, eftir að hafa verið í útgerð og fiskvinnslu, að kaupa veitinga og skemmtistaðinn Ásakaffi.
Eftir á að hyggja þá var ég helvíti ungur, 28 ára þegar ég vendi kvæði mínu í kross, hætti í útgerð og gerðist veitingamaður. En það þvældist ekkert fyrir mér þá.
Ásakaffi var skemmtistaður, pöbb, hádegisverðarstaður, veislur voru haldnar þarna auk þess sem seldar voru pizzur, hamborgarar og þess háttar. Böll héldum við ca tvisvar á mánuði. Þetta var mjög skemmtilegt en mikil vinna. Vinnudagarnir voru ekki kannski svo ýkja erfiðir en allt of langir. Venjuleg vika var 16 vinnutímar á dag, 7 daga vikunnar. Ég á því miður engar myndir af þessu tímabili þannig að minningin verður að duga hér. Ég seldi þetta á ágætis pening og var í fyrsta skiptið með einhvern smá aur. Þá var samankomið það sem ég fékk út úr rekstri Lögfisks, afrakstur af rekstri Ásakaffis, salan á Sigrúnu SH og síðar salan á Ásakaffi. Það var komið smá startfé.
Pólland: Þegar ég seldi Ásakaffi um vorið 1997 (enn ekki orðinn þrítugur – spáið í því!) eftir að hafa rekið það í um tvö ár, þá tók við smá millibilsástand. Ég tók mér fjögurra mánaða frí og ferðaðist til Póllands og tók ástfóstri við landið. Þangað ferðumst við hjónin oft enda eigum við frábært á flottum stað, hús sem við keyptum sumarið byggðum árið 2023/2024. Við byrjuðum á að kaupa okkur íbúð í blokk, sem var ágæt en lítið spennandi. Svo seldum við hana og keyptum sumarbústað í Póllandi árið 2003 sem við seldum svo árið 2017. Svo keyptum við einbýlishús í Bialystok, mjög gott hús sem við bjuggum í til lok árs 2023, myndir af því eru hér hér. Svo enduðum við á (Jú þetta er endirinn) á að byggja okkur algert draumahús. Byrjuðum að byggja það í febrúar 2023 og fluttum inn í það í Maí 2024. Myndir af því eru hér.
Ég tala pólsku nokkuð vel, sem gerir alla upplifun mikið skemmtilegri. Við hjónin höfum aðeins verið að fjárfesta þarna, sér í lagi í byggingarlóðum, og það hefur gengið ævintýralega. Við hefðum betur veðjað mikið meiru en uppgangurinn í landinu er ótrúlegur.
Þar á ég í dag lítið útflutningsfyrirtæki sem heitir TRM og nota ég það til að flytja út frá Póllandi og inn til Íslands vörur bæði fyrir Djúpaklett, Vélsmiðjuna og svo stundum fyrir aðra viðskiptavini mína. Ég er að vinna í því að fá Pólskan ríkisborgara rétt. Þá verð ég bæði með Íslenskan og líka Pólskan. Það skaðar aldrei að hafa fleiri möguleika í lífinu, Pólland er í ESB og verð ég þá komin með öll réttindi sem íbúar ESB hafa í álfunni.
Það sem margir ekki vita um Pólland er að landið tilheyrir alls ekki austur Evrópu, landið er nákvæmlega fyrir miðri Evrópu en það varð austur Evrópa í hugum fólks vegna kalda stríðsins 1950-1989. Landfræðileg lega landsins breyttist þó ekki, sjá mynd að neðan. Pólland er talið stofnað árið 966 og þá í ótrúlega líkri mynd/stærð og það er í dag. Eftir að Pólska-Litháenska ríkjasambandið leið undir lok árið 1795 hvarf Pólland af landakortum heimsins. Pólland komst aftur á landakort Evrópu klukkan 11 þann ellefta nóvember 1918. Þá hafði Pólland ekki verið á landakortum heimsins frá árinu 1795 eða í 123 ár. Pólverjar tóku við landinu sínu í algerri rúst eftir fyrri heimsstyrjöldina og endurbyggðu það á árunum 1918-1939 en þá réðust nasistar inn í landið þann 1 september en það margir vilja gleyma er að Sovétmenn réðust einnig inn í landið þann 17 september sama ár og var því Póllandi hertekið ekki bara af Þjóðverjum strax í byrjun 1939 heldur einnig af Sovétríkjunum. Heimstyrjöldinni lauk svo fyrir bróðurpart Evrópu 1945 en ekki fyrir Pólland. Pólland var hersetin þjóð með leppstjórn alveg þangað til lok árs 1989. Engin þjóð í Evrópu fékk sömu útreið í síðari heimsstyrjöldinni og Pólland, landið var gersamlega lagt í rúst og tæp 17% þjóðarinnar dó í stríðinu sem var hæsta hlutfall nokkurrar þjóðar. Eftir stríð tók við mikið niðurlægingartímabil fyrir Pólland. Pólverjar, sem töldu Sovétmenn jafn seka og Þjóðverja, voru hernuminn af þeim í 44 ár til viðbótar. Til þess að greiða fyrir lausn landsins frá Sovét gerði Pólland samninga við Sovétríkin um sölu á kolum, rafmagni, kartöflum og ýmsu öðru á “vægu” verði og voru þessir samningar til fimmtíu ára!!! Í þessu ljósi verður að skoða stöðu Póllands og Pólverja. En hraðinn í uppbyggingu Póllands er ótrúlegur.
Þegar ég kom heim frá Póllandi var kominn tími til að gera eitthvað nýtt. Þann 27 júlí árið 1998 stofnaði ég fyrirtækið Djúpaklett ehf sem ég hef rekið síðan. Ankerið í þeim rekstri er löndun og fiskumsýsla. Við hófum fljótlega saltfiskverkun, keyptum húsnæði undir þá verkun að Sólvöllum 6. Það gekk prýðilega en um árið 2004 fór að halla verulega undan fæti á saltfiskmörkuðum og hættum við saltfiskverkun það ár. Árið 1999 hófum við samstarf við HB á Akranesi. Gekk það mjög vel þar til að HB og Grandi voru sameinuð í eitt fyrirtæki. Það er skemmst frá að segja að við áttum ekki skap með nýjum eigendum og hættum við rekstri þar haustið 2006. Eftir á að hyggja þá var stefna þeirra alltaf hvort sem er að koma öllu til Reykjavíkur, þannig að við höfðum meira og minna engan séns á að vinna með nýjum eigendum. Höfðum við á samt þessum árum séð um landanir fyrir fyrirtækið sem og sáum við alfarið um síldar, loðnu og hrognafrystingu fyrir þá. Þegar mest var þá voru um hundrað manns í vinnu hjá okkur, þetta var ótrúlegur tími. Í dag sér Djúpiklettur hins vegar um alla vinnu fyrir Snæfrost hf, alla vinnu fyrir Snæís hf sem og alla vinnu fyrir Fiskmarkað Íslands á Grundarfirði. Við byggðum árið 2007-2008 750 fermetra húsnæði á uppfyllingu á Norðurgarði þar sem Djúpiklettur er til húsa í dag en þar rekum við fiskmarkað einnig í samstarfi við Fiskmarkað Íslands. Við fluttum inn í það húsnæði vorið 2008. Myndir af því þegar við byrjuðum að byggja eru hér. Djúpiklettur er, eins og allt sem ég kem nálægt í dag, allt er rekið í staðgreiðslu. Ég hef ekki haft neitt of góða reynslu af bönkum, einhverra hluta vegna treystu þeir mér aldrei. Nú þarf ég ekki mikið á þeim að halda og það hentar mér afar vel.
Ef telja ætti upp helstu viðskiptavini okkar (það má engin móðgast ef ég gleymi einhverjum) Þá eru það; Guðmundur Runólfsson hf, Soffanías Cecilsson hf, Fiskmarkaður Íslands, FISK, Samherji, Fiskmarkaður Snæfellsbæjar, GPG, Vísir, Skinney-Þinganes, HB Grandi, Vinnslustöðin Vestmannaeyjum, Síldarvinnslan og ÓS ehf. Auðvitað eru miklu fleiri en þetta eru svona þeir helstu.
Ef það er eitthvað sem ég er hvað stoltastur af þá er það að aldrei hefur neinn þurft að afskrifa eina krónu af neinu því braski sem ég hef tekið þátt í, ég hef aldrei valdið neinum tjóni, allir skattar, öll gjöld alltaf greidd. Það á að taka leyfi af fólki til að reka fyrirtæki ef þeir reka þau í þrot, hvað þá ef slíkt gerist reglulega. Við þurfum leyfi til að keyra bíl, passa börn, selja fasteignir… en ekki til að reka fyrirtæki. Það er rugl. Gjaldþrot verða bara ef menn tapa annarra manna peningum. Ef þú tapar öllum þínum peningum – þá ertu blankur. Ekki gjaldþrot.
Og þegar menn segja að eitthvað sé ekki hægt, þá er það ekki hægt. Ef þú nálgast verkefni með þeim hugsunargang, þá er það fyrirfram dauðadæmt. Ég komst þangað sem ég er án aðstoðar frá neinum, engir peningar, engin aðstoð, engin lán, engin fjölskylda, engin ættartengsl, ekkert. Bara ákveðnin. En það er ekkert “bara”. Það er allt hægt. Punktur. Sumir sjá ekki mun á ákveðni og frekju. Þar er mikill munur. Frekja er að krefjast hluta sem maður hefur ekki rétt á. Ákveðni er að fá þá hluti sem maður hefur rétt á. Án talsverðrar ákveðni kemst engin neitt, að minnsta kosti ekki í viðskiptum. Þar getur verið gott að vera eins og hestur með leppa.
Sjá ekki of mikið – hugsa ekki of mikið – halda bara áfram. Hvernig borðar maður fíl? Einn bita í einu.
Vélsmiðja Grundarfjarðar.
Árið 2016 keyptum við Remek saman það sem áður hét Vélsmiðjan Berg, við endurskýrðum það og heitir það frá og með 1. maí 2016 Vélsmiðja Grundarfjarðar. Remek hafði þá unnið hjá mér í Djúpaklett í nokkur ár. Þar sá ég að hann hafði einfaldlega allt of mikið af hæfileikum til að vinna þar, væri hann Íslendingur þá væri hann að vinna fyrir Marel eða svipað fyrirtæki. En við bara byrjuðum. Sá rekstur gengur mjög vel. Heimasíðan er hér. Við getum (og gerum það reglulega) flutt inn nánast hvað sem er beint frá Póllandi og Litháen, erum með mjög góða kontakta á báðum stöðum. Við bættum við reksturinn bifreiðarviðgerðum og erum með umboð fyrir Skeljung og erum með samstarfssamning við Heklu, B&L og fleiri. Menntunarstigið í þessu litla fyrirtæki er mjög hátt, við fluttum inn tvo lærða skipasmiði, einn bifvélavirkja og svo er Remek lærður bifvélarafvirki. Þetta fyrirtæki er ca 60% í vinnu fyrir útgerðina en hin 40% er fyrir einstaklinga, bílaviðgerðir og ýmislegt.
Vélsmiðjan og Byggingarbransinn. Við flytjum inn iðnaðarhús sem við bjóðum upp á að reisa líka. Dæmi um þessi hús er hér.
Fyrsta húsið sem við fluttum inn og reistum var fyrir Netagerð Guðmundar Runólfssonar hf, 860 fermetra hús sem er á hafnarbakka í Grundarfirði. Það var árið 2022.
Þetta eins og annað vatt upp á sig. Árið 2023 reistum við 800 fermetra hús á Grundarfirði, 170 fermetra viðyggingu við vélsmiðjuna á Grundarfirði og eitt 800 fermetra hús í Stykkishólmi. Árið 2024 reistum eitt hús á Sauðarkrók og eitt á Rifi. 2025 reisum við annað á Sauðarkrók (1200 fm) og annað í Grundarfirði (1000 fm), og svo eitt hús fyrir skíðafélagið á Grundarfirði. Þetta er svona amk það sem við vitum um nú.
Vélsmiðjan og verslun. Við stofnuðum nýja verslun, 6. okt 2023 sem selur bílavörur og hreinsiefni plús það sem við erum að flytja inn. Sú verslun heiti Snæsmiðjan. Við munum smá stækka hana eftir því sem á líður. Svo erum við að reyna fyrir okkur með innflutning sumarhúsa, sjá hér.
Selsker stofnaði ég árið 2007. Það er fasteignafélag sem á nokkrar fasteignir og heldur utan um öll hlutabréfakaup og brask sem ég vil ekki blanda inn í rekstur Djúpakletts. Selsker á og rekur á Íslandi 6 íbúðir.
TRM er fyrirtæki sem ég, Remek og Marek eigum í Póllandi. Nafnið er upphafs stafir okkar þriggja. Við stofnuðum það fyrirtæki árið 2019 í tvennskonar tilgangi. Í fyrsta lagi þá komumst við framhjá öllum einkaleyfum. Einkaleyfi innan ESB virka einmitt bara innan ESB þannig að allt sem selt þar getum við keypt. Ef við síðan ákveðum að senda það til Íslands, þá er það okkar mál. Þannig virka engin einkaleyfi sem til dæmis Audi (bara svo eitthvað dæmi sé tekið) hefur á Íslandi. Ekki gagnvart okkur. En hin ástæðan er sú að endurgreiðsla á vsk í Póllandi er flókin og okkur gekk illa að fá hann til baka. Með því að reka okkar eigið fyrirtæki þá kaupum við allt inn á það, seljum það til Íslands og síðan sér svo bókhaldarinn okkar í Póllandi um að innheimta virðisaukann til baka. Það gengur miklu betur þannig. Við flytjum inn allt mögulegt, allt frá frá tannlæknastólum til stórra vöruskemma.
Helgrindur. Ég átti enn eftir að vera í hótelrekstri, þannig að ég varð að byrja að taka þátt í ferðamannaiðnaðinum á Íslandi. Ég keypti efri hæð Grundargötu 30 í júlí 2020, mitt í Covid 19 klikkuninni – Akkúrat þegar öll hótel voru að loka á Íslandi, en það er raunar svolítið líkt mér. Ég reyndar byrjaði á að kaupa húsnæði bankans á neðri hæð en svo gerði ég mér grein fyrir áhuga Grundarfjarðarbæjar á að eignast það húsnæði. Þá datt mér í hug að skipta á efri og neðri hæð. Það hentaði mér miklu betur svo ég gerði þeim tilboð sem Grundarfjarðarbær svo tók. Ég seldi þeim neðri hæðina en keypti líka af þeim efri hæðina. Það er svolítið fyndið að hugsa til þess að ég var búinn að selja neðri hæðina til Grundarfjarðarbæjar áður en ég fékk afsalið fyrir henni, en svona ganga nú hlutirnir stundum hratt fyrir sig. Þetta fyrirtæki er í minni eigu 50% og Kristjáns Guðmundssonar bókhaldara 50%. Við innréttuðum það upp á nýtt, breyttum gersamlega öllu. Þetta mikilfenglega nafn er nafnið á fjallgarðinum sem umvefur Grundarfjörð frá Suð-Vestri til Suð-Austurs. Það fékk sína heimasíðu, helgrindur.com
Við opnuðum það í lok Júlí 2021 og það fékk fljúgandi start. C19 lauk, þannig lagað séð, í júní sama ár. Ekkert fyrirtæki sem ég hef stofnað hefur fengið svona start. Það kom mér helst á óvart hversu auðvelt þetta er. Ég eyði ekki meira en 2-3 klst á mánuð í þetta verkefni
Ég keypti svo báðar íbúðirnar sem eru á Grundagötu 28, íbúð á Eyrarvegi 7 og á Sæbóli 33 sem við leigum líka út.
Annað:
Ég er stjórnarformaður Snæíss hf og var stjórnarformaður Snæfrosts hf, frá 2007 til 2018 (þá keypti G.Run allt hlutafé þess fyrirtækis) en ég tók afar virkan þátt í að bæði Snæís og Snæfrost voru stofnuð.
Þannig hef ég dundað mér við að reka fiskverkun, útgerð, verið trillukarl, rekið slægingarþjónustu, verið í útflutning á fiski í gáma og flug, séð um loðnu, síldar og loðnuhrognafrystingu, rekið fiskmarkað og frystihótel, unnið í því að koma á fót ísverksmiðju og frystihóteli, braskað með framvirka gjaldeyrissamninga, átt í bílaverkstæði (KB Bílaversktæði sem ég átti í nokkra mánuði), flutt inn og reist iðnaðarhús, brasað í fasteigna og lóðarkaupum í Póllandi, Íslandi og í Bandaríkjunum, keypt og rekið vélsmiðju, leigt út 4 fasteignir í usa (sem voru í litlu hlutafélagi sem ég átti þar sem hét hinu þjála nafni tmanddh llc) og leigi út nokkrar íbúðir á Íslandi, verið kráar-rekandi, rekið hótel og svo gleymi ég örugglega einhverju. Svo var ég oddviti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn og þess utan hef ég keypt og selt fleiri fasteignir en ég get með nokkru móti munað – Þetta hefur ekki verið leiðinlegt og þessi ár síðan ég kom til Grundarfjarðar árið 1991 hafa liðið hratt
Áhugamálin eru fjölskyldan, golf, og ferðalög (nokkur vegin í þessari röð) og minni áhugamál eru snooker, bridge, gítarglamur, pólitík og fallegar konur. (Ekki endilega í þessari röð)
Golf; ég byrjaði á þessu vorið 2005 með konunni. Hún var strax miklu betri í þessu en ég og er það því miður enn. Um haustið 2005 fórum við til Islantilla á Spáni. Árið 2006 fórum við í golfferð til Jamaica. Það var virkilega góð ferð. Árið 2007 fórum við svo í golfferð til Thailands þau um haustið. Virkilega góð ferð Árið 2008 fórum við í vorferð í febrúar til Dóminíska Lýðveldisins til þess að spila. Þar var frábært að spila golf, mæli með því. Síðar fórum við til Orlando, um haustið 2008 sem átti eftir að hafa talsverðar afleiðingar, hér síðar á síðunni. Golfklúbbur okkar í Grundarfirði er barasta nokkuð góður, sveitavöllur náttúrulega en sem slíkur mjög góður. Ég var gjaldkeri þess klúbbs í nokkur ár.
Golfið gerði það að verkum að ég fór að ferðast til Orlando, til að spila golf. Það er stutta sagan að hrunið þar á húsnæðismarkað 2008 og ánægja mín af bæði viðskiptum og golfi gerði það að verkum að ég keypti fyrst eitt hús í Ventura, svo einbýlishús í Sanford og bætti svo við einu húsi til viðbótar í Ventura, svo öðru… Þetta eins og annað vatt svo upp á sig. Febrúar 2016 keypti ég mér einbýlishús í Ventura. Þannig að nú er komið að USA þætti lífs míns:
USA, við eigum sem stendur fallegt einbýlishús þar en svo vorum við nokkuð stórtæk í leigurekstri þar. Áttum 3 íbúðir og eitt hús sem við leigðum út aðallega til íslenskar golfara. Fyrstu íbúðina keyptum við í lok árs 2008. Það voru panik viðbrögð við hruninu heima, keyptum hana óséða. það var tveggja herbergja íbúð í Ventura, íslendingasvæðið í Orlando nánar tiltekið í Oasis. Þá keypti ég einbýlishús í Sanford, sem við sáum bara einu sinni, keyptum það 2010 á lítið sem ekki neitt og settum það í langtímaleigu. Bankahrunið í usa gerði þetta mögulegt. Næst keyptum við árið 2014 eins herbergja íbúð á sama svæði, þ.e. í Ventura. Og svo að lokum keyptum við aðra tveggja herbergja íbúð Ventura.
Svo létum við svo draum okkar rætast og keyptum okkur einbýlishús í Ventura, þetta hús hér. Við keyptum það í feb 2016 af algjörum heiðursmanni, Sveini Valfells. Við gerðum þessi viðskipti þannig að við hand skrifuðum þetta á A4 blað, engir lögfræðinga, engin fasteignasali. Og svo bara stóðu allir við sitt. Svoleiðis er hægt að gera ef þú ert að skipta við heiðursmann. Þetta skjal er innrammað og hangir upp á vegg á skrifstofunni minni í Brookwater cir. Þetta hús er aldrei leigt út, það stendur á miðri 10 braut á golfvellinum í Ventura – Géggjuð staðsetning enda er bjór kælir á svölunum þannig að allir fá bjór, ef þeir spila með mér og Dóru fyrir upphafshöggið á elleftu. Það er ritað í stein – óbreytanlegt og óumsemjanlegt.
Svo kom Covid… Og þá fór það saman að það var útilokað að reka þetta svona, með landið harðlokað, engir Íslendingar og allt í klessu svo það sé orðað pent. Og svo hitt, það gerðist það sama þar og á Íslandi, húsnæðisverð hækkaði helling. Þannig að í byrjun árs 2021 þá setti ég þær allar á sölu og í júní 2021 voru þær allar seldar. Fengum frábært verð fyrir þær þannig að við löbbum frá þessu hæstánægð. Ég er því búinn að loka fyrirtækinu mínu þar. Þetta var mjög skemmtilegur kafli í mínu lífi og lærdómsríkt.
Að reka fyrirtæki á Íslandi eða í Póllandi er ótrúlega ólíkt því að gera það í Bandaríkjunum. Skriffinskan og smáatriðavesenið í USA er amk 10 x meira en heima. Og bankaviðskiptin… Úff, þeir eru í fornöld, bronsöld, steinöld…
Ég var því skattgreiðandi í USA, með mitt ITIN númer og með mitt litla hlutafélag; TMANDDH llc. Það þarf víst að greiða þessi útvarpsgjöld…
Mótorhjól; Mótorhjólin; hræðileg della sem ekki er hægt að þroskast upp úr. Átti hjól bæði á Íslandi og annað í Póllandi. Ferðast töluvert í Póllandi enda enga stund verið að skreppa inn til Litháen, Rússlands, Þýskalands og Slóvakíu. Fór frá Póllandi árið 2005 niður til Slóvakíu, þaðan í gegnum Ungverjaland, svo til Slóveníu og endaði við Adríahaf kominn til Króatíu. Og svo þurfti maður náttúrulega að fara sömu leið til baka. Á bakaleiðinni fékk ég verstu rigningu sem ég hef séð. Það var skrýtið að keyra 500 km í einu í gegnum flóð sem umluktu allt Ungverjaland. Ekki skemmtilegt á keppnis mótorhjóli. Ég var í rauðum leðurgalla og þegar ég fór úr honum þá var ég orðinn allur rauður og var þannig í nokkrar vikur.
OK, ok, ok, smá leiðinda viðbót. Það er ekki hægt að þroskast úr mótorhjólum, ég komst út á annan máta.
Ég kom niður úr prjóni á GSXr 1000 Súkkunni minni á sennilega rúmlega 200 km hraða og lenti illa. Lenti á gjörgæslu eftir smá aðstoð þyrlu. Það var öllu öðru og öllum öðrum en mér að þakka að ég lifði þetta af. Á starfsfólk Borgarspítala og síðar á Grensáss allar mínar þakkir, forsjónin og svo náttúrulega konan. Þetta gerðist 30. júní 2012 og það tók mig svona ca ár að koma til baka, kannski 2 ár. En ég er lifandi og þessu sporti er lokið. Ég mun sakna þessa sports ógurlega, líka vélsleðanum þótt hann hefði aldrei verið jafn mikið áhugamál, en ég var víst fáránlega heppinn að lifa slysið mitt af, það stóð reyndar mjög tæpt í nokkra daga. Myndir af þessum gæðingum eru hér.
Hér eru myndir af stuttri ferð á vélsleðanum sem við fórum vorið 2008.
Ferðalög; við reynum að fara út eins og kostur er. Ef ég man það rétt þá eru þetta löndin sem við höfum heimsótt: Danmörk, Búlgaría, Færeyjar, Pólland, Svíþjóð, Noregur, Þýskaland, England, Frakkland, Spánn, Litháen, Rússland, Úkraína, Tékkland, Ungverjaland, Slóvenía, Slóvakía, Króatía, Portúgal, Indland, Tyrkland, Nepal, Thaíland, Jamaica, Grikkland, Bandaríkin, Dóminíska lýðveldið, Túnis. Kýpur og Vestmannaeyjar. Við búum orðið ca 6 mánuði á ári í Orlando, erum ca 3-4 mánuði í Póllandi en alla hina mánuðina erum við heima á Íslandi.
Pólitíkin. Ég telst til frjálslyndra hægrimanna. Gæti einhverju ráðið þá myndi ég vilja markaðsvæða landbúnaðarkerfið, gera skýrari mörk milli dóms/framkvæmda og lagasetningarvalds, minnka ríkisumsvif eins og kostur er, gera leikreglur á markaði skýrar og einfaldar – ég tel að ríkið eigi að setja reglur og hafa öflugar eftirlitsstofnanir til að fylgjast með að lögum sé framfylgt en ekki endilega vera framkvæmdaraðili. Ruv er einfaldasta dæmið – ríkið getur vel styrkt innlenda dagskrárgerð en þarf alls ekki að reka sjónvarpsstöð eða tvær útvarpsstöðvar til þess. Ég tel mikilvægt að aðilum á markaði séu sköpuð góð skilyrði en jafnframt veitt aðhald með því að koma í veg fyrir einokun og/eða misnotkun sé það á annað borð hægt. Þannig að ríkið á að sjá um þessa hluti fyrst og fremst; skapa börnum okkar góða menntun óháð efnahag, sjá til þess að Íslendingar fái fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, sjái til þess að aldraðir njóti síðustu áranna og að lokum haldi uppi lög og reglu. Annað þurfum við ekki opinbera aðila til að þjóna okkur með. Sumu af þessu geta einka aðilar sinnt, en ríkið þarf að tryggja aðgang okkar að þessu, óháð efnahag. Ekki endilega framkvæma þetta sjálft.
Einnig tel ég eðlilegt að skilgreina samningsmarkmið og hefja umræður um inngöngu í ESB en ég tel upptöku evru algera nauðsyn hið fyrsta. Útópískasti draumur minn væri að hætta alveg með sér íslenskar lausnir, við eigum að notfæra okkur þekkingu annarra og stærri þjóða og taka upp þau kerfi sem hafa reynst best í Evrópu; Þýska lífeyrissjóðakerfið, finnska menntakerfið, danska húsnæðiskerfið… Það er búið að finna þetta allt saman upp. Allar sér íslenskar lausnir hafa búið til sér íslensk vandamál.
Ég starfaði lengi fyrir sjálfstæðisflokkinn, var oddviti Sjálfstæðisflokks Grundarfjarðar, varaforseti bæjarstjórnar og var formaður byggingarnefndar í mörg ár. Sjálfstæðisflokkur ákvað að svíkja mig og marga aðra í ESB málinu og þar skildu leiðir. Ég er því landlaus eins og stendur, og hef eftir því sem árin líða misst áhuga á stjórnmálum.
Önnur félagasamtök sem ég starfa í eða er félagsmaður í eru; Félagi í golfklúbbi Vestarr, Ásatrúarfélagið (en mér finnst það stór skemmtileg tilhugsun að til skuli vera fólk sem heldur í vorn forna sið – að öðru leiti er ég algerlega trúlaus) og Siðmennt samtök húmanista – það ríkir mikill misskilningur um hvað það er að vera húmanisti – hér fylgir skýring:
• Við styðjumst við skynsemi og vísindi til að öðlast skilning á alheiminum og viðfangsefnum samfélagsins.
• Við hörmum allar þær tilraunir sem í gangi eru til að gera sem minnst úr mannlegri skynsemi og leita í staðinn skýringa og björgunar í yfirnáttúrulegum fyrirbærum.
• Við erum þeirrar skoðunar að uppgötvanir í vísindum og nýjungar í tækni geti stuðlað að betra lífi.
• Við styðjum opið, víðsýnt og fjölþætt samfélag og við teljum að lýðræði sé besti kosturinn til að vernda mannréttindi bæði gagnvart einræðissinnuðum forréttindahópum og umburðarlitlum fjöldahreyfingum.
• Við styðjum aðskilnað ríkis og kirkju.
• Við viljum efla listina að ná samkomulagi og sáttum og á þann hátt viljum við leysa ágreining og efla gagnkvæman skilning manna á meðal.
• Við leitumst við að tryggja réttlæti og sanngirni og útrýma umburðarleysi og ofsóknum.
• Við viljum hjálpa þeim sem eiga við fötlun eða sjúkdóma að stríða þannig að þau geti hjálpað sér sjálf.
• Við reynum að yfirstíga skiptingu manna í fjandsamlega hópa sem hver um sig byggir tilvist sína á ákveðinni sérstöðu, til dæmis kynþætti, trúarbrögðum, kyni, þjóðerni, stétt, tungumálum eða kynhneigð og fá fólk úr ólíkum hópum til að vinna saman að málefnum sem eru til góðs fyrir mannkyn allt.
• Við viljum standa vörð um verðmæti jarðarinnar og auka þau, að vernda þessi verðmæti fyrir kynslóðir framtíðarinnar og hindra allar óþarfa þjáningar annarra dýra.
• Við viljum njóta lífsins sem við þekkjum núna og efla sköpunargáfu okkar sem allra mest.
• Við viljum rækta sem best siðræn gildi okkar og okkar á meðal.
• Við virðum réttinn til einkalífs. Fullorðið fólk á þar að hafa fullt frelsi til að velja og hafna, fylgja kynhneigð sinni að eigin vild, að eignast börn samkvæmt eigin ákvörðunum, að hafa aðgang að víðtækri og góðri heilbrigðisþjónustu og fá að deyja í reisn.
• Við setjum traust okkar á almenn siðræn verðmæti: Tillitssemi, heiðarleika, drengskap, sannsögli, ábyrgð. Siðfræði húmanismans er ávallt lögð á mælistiku gagnrýninnar og upplýstrar hugsunar. Saman sköpum við tilteknar siðrænar reglur og við dæmum gildi þessara reglna eftir árangrinum.
• Við leggjum mikla áherslu á siðmennt barna okkar. Við viljum efla skynsemi og samúð.
• Við viljum efla listir engu minna en vísindi.
• Við erum borgarar alheimsins og horfum með hrifningu á ný sannindi um eðli hans.
• Við teljum að nýjar hugmyndir eigi að standast fræðilega rannsókn; að öðrum kosti vantreystum við þeim.
• Við erum þeirrar skoðunar að húmanisminn sé raunhæfur valkostur við trúarbrögð örvæntingar og hugmyndafræði ofbeldis. Húmanisminn er uppspretta ríkrar persónulegrar reynslu og ánægju við að hjálpa öðrum.
• Við veljum bjartsýni en ekki svartsýni, von en ekki örvæntingu, lærdóm en ekki kreddur, sannleika en ekki fáfræði, gleði en ekki sekt eða synd, umburðarlyndi en ekki ótta, ást en ekki hatur, samúð en ekki eigingirni, fegurð en ekki ljótleika og skynsemi en ekki blinda trú eða afneitun rökréttrar hugsunar.
• Í nafni man gildisins viljum við standa vörð um og rækta allt það göfugasta og besta sem við getum greint.
Mín 5 cent: Sá sem er reiðubúinn að fórna frelsi til að öðlast tímabundið öryggi á hvorugt skilið, hvorki öryggi né frelsi. Benjamin Franklin “They who can give up essential liberty to obtain a little temporary safety, deserve neither liberty nor safety.”